Fyrir hverja er Draumasetrið?

Draumasetrið er áfangaheimili sem hefur það að markmiði að hýsa fólk tímabundið sem er að endurbyggja líf sitt eftir áfengis og/eða vímuefnaneyslu. Margir sem búa á Draumasetrinu eru að koma af stofnun, t.d. meðferðarheimili, sjúkrahúsi eða úr fangelsi. Flestir eru í þeirri stöðu að hafa ekki fasta búsetu eða af einhverjum ástæðum treysta sér ekki til að snúa til baka í það umhverfi sem þeir koma úr. Svo eru líka einstaklingar sem standa á krossgötum í lífinu, en hafa samt verið án áfengis og vímuefna, sem velja að flytja á áfangaheimili til að fá þann stuðning sem þeim vantar.

Að búa á áfangaheimili getur verið mjög heillavænlegur kostur og stuðlað að betri árangri í edrúmennsku. Ótal margir hafa byggt upp fallegt og heilbrigt líf eftir dvöl á Draumasetrinu.

Húsreglur

Það eru ákveðnar reglur sem gilda fyrir heimilisfólk Draumasetursins og það er mjög mikilvægt að fylgja þeim. Reglurnar eru þó einfaldar og snúast í raun að mestu um að sýna öðrum íbúum tillitsemi og að íbúar sinni þeim verkum sem þeim er falið. 

Allir fá húsverk að sinna og þannig höldum við heimilinu snyrtilegu og heimilislegu rétt eins og hverju öðru heimili. 

Einnig eru morgunfundir fjórum sinnum í viku og húsfundur einu sinni í viku. Á morgunfundunum koma íbúarnir saman á kaffihúsinu og setja sig inní daginn sem framundan er. Á húsfundum er farið yfir þau málefni sem fyrirliggja hverju sinni í húsinu.

Á mánudögum mætir allt heimilisfólk á samkomu hjá United Reykjavík. Þar er skyldumæting en þó er engum skylt að taka meiri þátt í samkomunni en vilji er fyrir, eina skilyrðið er að mæta á staðinn. Við hvetjum þó alla til að mæta með opnum huga.

Að búa á stóru heimili

Það getur vissulega verið áskorun að búa með um 40 öðrum einstaklingum og það geta vissulega komið árekstrar. Það er því mikilvægt að sýna öðrum íbúum umburðarlyndi og tillitsemi. Það er líka mikilvægt að muna að allir sem búa á Draumasetrinu eru að koma úr aðstæðum sem einkennast af stjórnleysi og erfiðleikum, jafnvel erfiðum áföllum. Það eru því allir að læra að fóta sig í nýjum lífsstíl og læra að takast á við aðstæður sem eru oft á tíðum framandi.

En á Draumasetrinu hafa líka myndast mörg falleg og órjúfanleg vinatengsl. Margir hafa haldið vinskap eftir að veru á Draumasetrinu lýkur og hittast reglulega. Einnig eru einstaklingar sem koma reglulega í heimsókn á Draumasetrið, til að hitta heimilisfólk eða taka þátt í starfi Draumasetursins eins og til dæmis húsfundum eða viðburðum á vegum heimilisins.

Einnig eru fjölmargir sem halda áfram að sækja samkomur United Reykjavík eftir að dvölinni líkur.